þriðjudagur, október 03, 2006

Tekinn af pabba

Á mínum menntaskólaárum stóð ég gjarnan í heitum...eða a.m.k. volgum rökræðum við bekkjarfélaga mina og ósjaldan voru það við Tryggvi Gunnarsson sem ræddum saman. Yfirleitt var það þannig að margir hlustuðu á og þegar búið var að kveða hinn aðilann í kútinn, heyrðist í meintum sigurvegara ,,tekinn TEKINN" í stigmagnandi hljómi. Þeir sem hlustuðu á voru nokkurs konar dómarar og var það hlátur þeirra sem skar úr um hversu tekinn meintur ósigurvegari rökræðanna var.

Í gær horfði ég á leik Watford og Fulham í enska boltanum ásamt mömmu og pabba sem eru bæ ðe vei á sjötugs aldri. Undir lok leiksins sagði ég eitthvað á þessa leið, þetta er týpískur enskur leikur og átti þar með við að leikurinn bæri einkenni enskrar knattspyrnu sem eru langar sendingar uppá von og óvon. Við það hváði í föður mínum ,,það er ekki skrítið þar sem þetta er leikur í ensku úrvalsdeildinni".

Fyrsta hugsun mín var eitthvað á þessa leið ,,Jesús minn hvað þetta var ekki sniðugt comment" en í sömu andrá heyrðust hlátrasköllin í móður minni sem lá á gólfinu að kæla á sér bakið. Hún hreinlega tók andköf af hlátri og þá espaðist faðir minn allur við og endurtók ,,það er ekki skrítð þar sem þetta er leikur í ensku úrvalsdeildinni" og bankaði í sófaborðið.

Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á því að sennilega hafði ég verið tekinn skv. menntskælingahefðinni forðum. Því gat ég ekki annað en hugsað ,,tekinn af pabba mínum, hversu slæmt er það!", Um leið og ég áttaði mig á því fór ég líka að hlæja sem var líkt og olía á hlátursbálið sem magnaðist fjórfalt um leið. Ekki náðist að ráða niðurlögum þess fyrr en u.þ.b. tveimur mínútum og fjölda banka í sófaborðið síðar.

Tvennt má læra af þessu. Ber er hver að baki nema sér bróðir eigi. Tíðarandi í menntaskóla er ekki eitthvað sem má heimfæra yfir á daglegt líf.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Það er alveg sama hvað þú lest mikið í bókum og ferð á mörg kaffihús, smiðurinn mun alltaf taka þig!
Kveðja Bjarni Þór

1:38 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

He he he... Smiðurinn tekur alltaf hornrétt á hlutunum. Engin leið að mótmæla slíkum manni.

4:34 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home