miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Bölvuð bókhlaðan

Um leið og ég ítreka seinustu færslu langar mig að fjalla eilítið um kynni mín af bókhlöðunni.

Þrennt er þar markverðast.

1. Í fyrstu heimsókn minni þangað, enn á menntaskólaaldri, flækti ég bómullarpeysuna mína í trégardínu, sem þar var (og er enn), með þeim afleiðingum að hún datt á gólfið með tilheyrandi látum.

Illir Háskólanemar í próftörn gerðu sitt besta að drepa mig með augnráði sínu. En það er ekki hægt.... Engu að síður sá ég hag minn bestan í því að yfirgefa ,,hlöðuna" og fór heim og fékk mér heitt súkkulaði með eilitlu brandí út í.

2. Eftir langan og erfiðan dag, uppfullum af lestri fræðibóka, stóð ég upp og þakkaði samnemendum mínum fyrir daginn. Jafnframt tilkynnti ég þeim að ég ætlaði að fá mér ylvolga súpu frá mömmu þegar heim væri komið.

Félagar mínir í námsstreði höfðu engan skilning á skyndilegum áhuga mínum á því að tengjast við þá og hlógu hrokafullum hlátri. Ekki er gaman að vera aðhlátursefni og því fór ég heim og fékk mér smá séníverdreitil með súpunni.

3. Eitt sinn var ég staddur með hópi manna niðri á kaffistofu þegar ég hallaði mér upp að millivegg einum er þar var. Hann var gerður úr tré og stóð á fæti í stað þess að vera gerður úr steypu og vera fastur við aðra steinsteypta veggi. Því gaf veggurinn eftir þegar ég hallaði mér að hounum og féll á gólfið með miklum látum.

Sjálfur lá ég kylliflatur í smástund. Í stað þess að svokallaðir ,,félagar" mínir hjálpuðu mér á fætur með umhyggjusemi í huga, ráku þeir upp rokna hlátur. Hlátur er smitandi og fljótlega voru aðrir, sem staddir voru á kaffistofunni, í sama ham. Ham illkvittninnar. Eftir þetta hljóp ég heim og fékk mér Baylies og súkkulaðiköku svona rétt til að sefa tilfinningu auðmýktar.

Bölvuð bókhlaðan.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sjálfur varð ég vitni að atriði 2 og 3 og sjaldan hef ég hlegið jafn mikið. Ég er vissum að þessi tvö atriði gætum haldið uppi gamanmynd.

Kv.Bjarni Þór.

6:14 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég varð líka vitni að atriði 2 og ég get tekið undir með Bjarnanum, ég held ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið, slíkur var sniðugleikinn.

12:12 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sama svar og Daða

6:39 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home