laugardagur, nóvember 25, 2006

Hlaupasaga

Staður: Rvk.
Verkefni: 10 km hlaup
Aðstæður: 7 gráðu frost, logn, svell á löngum köflum, annars staðar snjór, nokkuð um brekkur.
Hlaupaleið: Úr Safamýri og svo, Miklabraut, Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut. 4 hringir.

Sólargeislarnir lituðu upp gufukenndan andardráttinn í frostinu, þegar haldið var af stað frá Framheimilinu kl 10.30. Hugsanir á borð við, ,,nei" og ,,hvernig á þetta að gagnast knattspyrnumönnum", flugu í gegnum höfuðið. Á fyrsta hring marraði í stífum liðum og stirðum vöðvum á meðan menn komu sér í gang. U.þ.b. 12 mínútum og 2,5 km síðar var hringurinn búinn og annar hringurinn tók við. Nokkrir geðsjúklingar hófu að auka hraðan og fljótlega var hluti hópsins kominn u.þ.b. 200 metra á undan mér. Enn svona þokkalega jákvæður hugsaði ég ,,jæja þá er fyrsti búinn og bara 3 eftir". Hringur númer tvö var erfiður.

Á hring þrjú komu fram hugsanir á borð við ,,drottinn minn dýri það er svo mikið eftir" og ,,mig langar í heitt kakó". Eftir þriðja hring stóð þar þjálfaraböðullinn með öxi í formi klukku. Ég hljóp framhjá honum með tunguna í eftirdragi og augljóslega stutt frá hjartaáfalli. Því vonaðist ég til þess að Óli myndi segja ,,þetta er komið gott, ég var að grínast með fjórða hringinn, fáiði ykkur heitt súkkulaði, það er skipun." þess í stað sagði hann hins vegar ,, Viddi þú ert að fara aðeins of hægt, þú verður að bæta aðeins í til þess að ná þessu undir 46 mínútum", sem var markmið dagsins.

4. hringur: hugur á móti líkama, andinn á móti efninu, ekkert yang, bara ying. Með því að breyta texta lagsins Eitt lag enn, sem var framlag Íslands í Eurovision árið 1989, í ,,eitt skref enn", tókst mér að þrauka hálfan hringinn. En þegar kom að helvítis Háaleitisbrautinni sem er ein samfelld brekka í svona 800 metra, dugði það ekki lengur til. Við tók ljónsvilji músarinnar og fæturnir, þreyttari en Bubbi Mortens, héldu einhvern veginn áfram. Þegar ég sá glitta þjálfarann, var ég nánast orðinn galinn af þreytu. Ég hljóp áfram eitt skref, svo annað til og endurtók þetta ferli nokkrum sinnum og síðan.....þegar svona 30 metrar voru í mark, var kona með barnavagn í vegi mínum. Á þeim tímapunkti ákvað galinn hugur minn að beygja ekki framhjá vagninum þar sem í því fælust 2-3 auka skref. Augu mín og móðurinnar mættust og móðureðlið sagði henni að líklega stefndi hér í óefni. Á örskotsstundu sveigði hún barnavagninum frá, en í sömu andrá þeystis ég framhjá á allt að 6km hraða.

Þegar í markið var komið hafði ég rétt orku í það að æpa jess!!! Um leið og þjálfarinn sagði að ég hefði náð tímanum. Eftir þetta fór ég í sturtu og fór upp að tippa. Þura var svo væn að rétta mér AB mjólk vegna mikils orkutaps. Ég opnaði hana og byrjaði að drekka, en bragðlaukarnir mótmæltu samstundis. Mjólkin var frá 29 september og kjékkótt mjög.....

já það er ekki tekið út með sældinni að vera fótboltamaður/geðsjúklingur á Íslandi.

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hvað ert þú að kvarta vinur. Samkvæmt fréttablaðinu í dag ert þú nú ekki á neinum sultarlaunum við þessi heilsubótarhlaup þín.

4:17 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Nei, það er reyndar rétt. Ég var rétt í þessu að koma úr peningabaði. Bölvaðir fimmtíu kallarnir festast alltaf í eyrunum á manni. En ilmurinn af þúsund köllunum gerir þetta þess virði.

4:51 e.h.  
Blogger Sólskinsfífl nútímans said...

Ætlaði einmitt að impra á sama hlut og meistarinn. Ég er hins vegar tilbúinn til að segja það hér og nú að biðist mér samningur með 600.000kr á mánuði fyrir það eitt að hlaupa 10km fjórum sinnum í mánuði myndi ég hlæja að viðkomandi, rífa samninginn og bjóða honum að éta 100gr af saur úr mér daglega fyrir sama pening.

1:36 f.h.  
Blogger Sólskinsfífl nútímans said...

Nú hefur maður auk þess heyrt það að stefnan sé sett á 14km. En ef við höldum okkur við 10km og það frá 1.janúar og fram að móti þá munt þú hlaupa ca. 200km af og væntanlega farin að gjörþekkja þennan 2,5km kafla. Svekkjandi svo þegar einhver útlendingur kemur akfeitur 10 dögum fyrir mót og tekur þitt sæti í byrjunarliðinu... humm yes!

5:23 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Já það myndi vera svekkjandi mjög, jafnvel þó hann væri grannur og nettur fýr.

Ef það gerist get ég alltaf tekið þátt í þríþrautinni, þar sem maður hleypur, syndir og hjólar....Eða bara verið með í Reykjavíkurmaraþoninu. Það væri hressandi, medalía og svona...

2:54 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sko, í Kærustunni hans Ara........

11:03 f.h.  
Blogger Linda said...

Rifjar upp gamlar og "góðar" minningar þegar ég ákvað að fara að æfa hlaup með ÍR (Mörtu, Fríðu Rún og co.) eftir ansi ansi langt hlé frá hlaupum. Veit ekki hvaða geðsýki kom eiginlega yfir mig þá! Núna legg ég mest upp úr því að borða hlaup;)

2:48 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Já, hvað var það? Þetta gerðiru ótilneydd...

Að vísu var ég að spá í sameina þetta tvennt og stofna svona hlaupa- og hlauphóp.

Æft svona tvisvar til þrisvar í viku með 10km hlaupi og svo 200 grömm af hlaupi á meðan maður er að teygja.

Grand finale verðu síðan Skeiðarárhlaup næsta sumar....hlaupið meðfram ánni frá uppsprettu til sjávar og svo grillaðir hlaupkallar þegar á enda er komið.

9:43 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home