Að undanförnu hefur mikið verið rætt um ójöfnuð í þjóðfélaginu. Ef marka má blað Frjálsrar verslunar eru rúmlega 50 einstaklingar með meira en tvær miljónir á mánuði í laun fyrir sína vinnu og eru margir þeirra bankamenn. Á sama tíma eru lægstu laun 100-200 þúsund krónur á mánuði.
Sumir segja það ósanngjarnt þegar bilið á milli þessarra launahópa er svona mikið. Aðrir telja að það sé ,,bara rugl" að bankamenn fái svona há laun. Enn aðrir vilja meina að slíkt ósamræmi ógni ,,þjóðarsátt" þar sem slík þróun sé forsenda stéttaskiptingar í landinu. Að síðustu tala ýmsir um að engum sé hollt að eiga svona mikla peninga og einunugis til marks um græðgi viðkomandi.
En mikilvægt er að átta sig á einu.
Bankarnir hafa skapað þjóðarbúinu meiri peninga en nokkur önnur atvinnugrein á undaförnum árum. Elja og hugvitsemi einstaklinganna sem þar vinna hefur skapað þennan auð. Sérstaklega er hér um að ræða vinnu innan ákveðinna deilda í bönkunum.
Því er eðlilegt að spyrja sig hvort ekki sé sanngjarnt að þessir aðilar njóti þeirra ávaxta sem vinna þeirra skapar. Í þessu samhengi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þetta fjármagn sem bankarnir skapa er ekki tekið úr einhverjum tæmandi potti. Því er enginn hlunnfarinn þó aðilar innan bankanna fái há laun. Enginn þeirra er að taka laun frá öðrum í þjóðfélaginu.
Hvað fæst með því að skattleggja eða veita hálaunamönnum lægri laun? Eiga bankafyritækin sjálf að fá þessa peninga sem ellegar gætu verið greiddir í laun? Á ríkið að taka aukalega af hálaunamönnum þegar rannsóknir sýna að slíkt veitir ekki auknar skatttekjur? (Sem er einhver hagfræði sem ég kann ekki nánari skil á)
Ekki er gott að sjá ávinningin af því
Mergurinn málsins er sá að umræðan er sprottin upp vegna öfundar. Hin ímyndaða þjóðarsátt er byggð á því að enginn megi hafa það of gott því slíkt sé svindl eða ósanngjarnt. Manni leyfist að efast um að slík rök standist í ,,siðmenntuðu" þjóðfélagi.
Hver sem er getur keppst að því að reyna að fá sem hæst laun. Slíkt er vel gerlegt í landi eins og Íslandi þar sem langflestir hafa tækifæri til þess að keppast að því að koma sér áfram á atvinnumarkaði, t.d. með því að mennta sig meira.
Siðan er líka hægt að vera sáttur við sitt hlutskipti og njóta þess að vera til án þess að láta ásókn í efnislegar þarfir stjórna sínu lífi.
Ég er farinn að horfa á Seinfeld. Hann er fyndinn.