mánudagur, febrúar 26, 2007

Útskrift og fyrirlestur á Laugavatni

Ég þakka öllum sem mættu í útskriftaveislu mína fyrir komuna og er ég afar hress með að fólk hafi yfir höfuð mætt, með sitt höfuð, inn á heimili föður míns. Fyrir þá sem segja að þeim hafi leiðst segi ég: ,, ég vísa því til föðurhúsanna". Faðir minn sýndi mikla hæfni í þjónahlutverki og móðir mín og Ragna sýndu mikla hæfni í skipulagningu og veislustjórn og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Auk þess langar mig að þakka fyrir gjafir og sýndan hlýhug.

Um leið og ég læri að setja myndir inn á tölvu, mun ég setja myndir úr veislunni hér inn.

Útskriftin var svo sem ágæt líka. Það kann að hljóma undarlega, en það sem ég var að hugsa þegar ég fékk prófskírteinið og tók í hönd Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors og Kristínar Ingólfsdóttur rektors, var eitthvað á þessa leið, ,,ég vona að enginn hafi verið að klóra sér í pungnum áður en hann tók í höndina á þeim". Enda voru u.þ.b. 290 manns búnir að taka í höndina á Kristínu og að auki svona 40 í höndina á Ólafi áður en kom að mér. Að sjálfsögðu er ólíklegt að kvenkyns útskriftanemar hafi tekið þátt í slíkum athöfnum. Kannski þær hafi verið að klóra sér í einhverju öðru, hvað veit ég?

Að öðru. Í vikunni hélt ég tvo 80 mínútna fyrirlestra fyrir menntaskólakrakka sem Skúli vinur, kennir á Laugavatni. Umfjöllunarefnið var kapítalismi og frjálshyggja. Það gekk ágætlega fyrir utan nett svitakast sem kom í seinni fyrirlestrinum. Held samt að enginn hafi tekið eftir því. Gaman var að sjá að sumir krakkanna töldu sig mikla frjálshyggjumenn og aðrir töldu sig harða vinstri menn, án þess að vita af hverju þeir voru það. Maður sá þó að þeir höfðu áhuga og spurðu mikið í umræðum í lok fyrirlestranna. Þar með er markmiðinu náð.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Orsök og afleiðing

Bráðlega verður hér haldin klámráðstefna. Á baksíðu Fréttablaðsins er pistill eftir Þórhildi Elínu Elínardóttur. Inntak pistilsins er eitthvað á þennan veg. Sterk fylgni er á milli kláms, vændis og mansals. Því ættu Íslendingar ekki að bjóða klámfólkið velkomið, sem hingað kemur á ráðstefnuna. (Ég skil þetta sem svo að banna ætti fólki að koma hingað á ráðstefnuna).

Ég nenni ekki að benda á augljósa röksemdargalla þessa málflutnings, enda hafa aðrir bloggarar gert það vel, en langar samt að benda á eitt.

Öll sú umfjöllun sem klámráðstefnan fær, slæm eða góð, er sem vatn á myllu þeirra sem hana halda. Með því er verið að beina athygli að iðnaði sem þrífst á því að vera umdeildur og er verið að veita honum auglýsingu sem ekki fæst keypt.

Þeir sem berjast gegn klámiðnaðinum átta sig oft á tíðum ekki á því að hann er afleiðing en ekki orsök alls kyns vanda á borð við fíkniefnanotkunar og kynferðisofbeldis í æsku.

Til er orðatiltæki á ensku sem hljómar svo ,,choose your battles" og mættu andstæðingar klámiðnaðarins taka sér hann til fyrirmyndar. Í stað þess að spyrja sig ,,hvað get ég gerst til þess að berjast gegn klámiðnaðinum". Ætti fólk að spyrja sig ,,hvað get ég gert til þess að koma í veg fyrir að neyðin, sem rekur fólk til þess að starfa í klámiðnaðinum, sé til staðar".

föstudagur, febrúar 16, 2007

Ögmundur Jónason

Illa er farið með Ögmund Jónasson í rökræðum í Kastljósi í gær. Raunar pínlegt að horfa upp á þetta fyrir hans hönd. Ögmundur sér vanalega sjálfur um að tala sig í kaf, en hér mætir hann Sigurjóni Árnasyni bankastjóra Landsbankans.

Til að gera langa sögu stutta, minnir þetta einn helst á mann frá 2007 að ræða við mann frá 1848, sem er nýbúinn að lesa kommúnistaávarpið, tilbúinn í stríð og strit, en hlustar ekki á skynsemi og vit.

Tilefnislaus nauðgun

Neðarlega á forsíðu Fréttablaðisins er frétt undir yfirskriftinni Nágranni kom í veg fyrir nauðgun. Þar segir frá konu sem var að ganga heim eftir djamm, eins og ungdómurinn kallar það, þegar maður ræðst á hana, ber hana sundur og saman og reynir að nauðga.

Í fréttinni stendur orðrétt. ,,Konan þekkti manninn ekki neitt og virðist árásin hafa verið tilefnislaus".

Þetta segir mér að hún hafi ekki verið í stuttu pilsi og nauðgunin því á engan hátt réttlætanleg....
Hvert er stefnir þessi volæða veröld þegar nauðgunarárásir eru orðnar tilefnislausar.... TILEFNISLAUSAR SEGI ÉG!

Framboð og eftirspurn

Í dag fór ég á ráðningarskrifstofu.

Talaði um kosti mína og galla, áhugamál og áhugaleysi. Hafnaði starfi þjónustufulltrúa í banka sökum áhugaleysis. Nefndi draumastarfið. Það er ekki á lausu. Mér er alveg sama. Ég ætla samt að fá það.

Því fór ég að velta því fyrir mér hvernig ég gæti gert sjálfan mig eftirsóknarverðan á vinnumarkaði. Eru það þröngar buxur, stífuð skyrta og gelað hár eða eitthvað allt annað? Hugmyndir eru vel þegnar.

Það eina sem ég veit er að þetta er allt saman spurning um framboð og eftirspurn.

Góðar stundir.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Valentínusardagur

Gleðilegan súkkulaðihúðaðan karamellufudge dag, með sýrópi og hunangi.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Mynd


fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Stúdentapólitík







Sá tvö plaggöt áðan frá Vöku og Röskvu. Undir plaggati Vöku stóð ,,félag lýðræðissinnaðra stúdenta", en undir plaggati Röskvu stóð ,,samtök félagshyggjufólks".

Svolítið fyndið þar sem kosningabarátta félaganna er með því ólýðræðislegra sem gerist og fer í raun bara eftir því hvor hópanna á fleiri vini í skólanum.

Í öðru lagi er svolítið öfugsnúið að bendla einhverri félagshyggju við stúdentapólitík. Markmiðið hlýtur alltaf að vera að huga að hag stúdenta í heild sinni og lítið rúm fyrir félagshyggju eða markaðshyggju í slíkri hagsmunabaráttu.

Nema náttúrulega að Vaka beri hag stjórnvalda eða auðugra námsmanna fyrir brjósti?

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Bölvuð bókhlaðan

Um leið og ég ítreka seinustu færslu langar mig að fjalla eilítið um kynni mín af bókhlöðunni.

Þrennt er þar markverðast.

1. Í fyrstu heimsókn minni þangað, enn á menntaskólaaldri, flækti ég bómullarpeysuna mína í trégardínu, sem þar var (og er enn), með þeim afleiðingum að hún datt á gólfið með tilheyrandi látum.

Illir Háskólanemar í próftörn gerðu sitt besta að drepa mig með augnráði sínu. En það er ekki hægt.... Engu að síður sá ég hag minn bestan í því að yfirgefa ,,hlöðuna" og fór heim og fékk mér heitt súkkulaði með eilitlu brandí út í.

2. Eftir langan og erfiðan dag, uppfullum af lestri fræðibóka, stóð ég upp og þakkaði samnemendum mínum fyrir daginn. Jafnframt tilkynnti ég þeim að ég ætlaði að fá mér ylvolga súpu frá mömmu þegar heim væri komið.

Félagar mínir í námsstreði höfðu engan skilning á skyndilegum áhuga mínum á því að tengjast við þá og hlógu hrokafullum hlátri. Ekki er gaman að vera aðhlátursefni og því fór ég heim og fékk mér smá séníverdreitil með súpunni.

3. Eitt sinn var ég staddur með hópi manna niðri á kaffistofu þegar ég hallaði mér upp að millivegg einum er þar var. Hann var gerður úr tré og stóð á fæti í stað þess að vera gerður úr steypu og vera fastur við aðra steinsteypta veggi. Því gaf veggurinn eftir þegar ég hallaði mér að hounum og féll á gólfið með miklum látum.

Sjálfur lá ég kylliflatur í smástund. Í stað þess að svokallaðir ,,félagar" mínir hjálpuðu mér á fætur með umhyggjusemi í huga, ráku þeir upp rokna hlátur. Hlátur er smitandi og fljótlega voru aðrir, sem staddir voru á kaffistofunni, í sama ham. Ham illkvittninnar. Eftir þetta hljóp ég heim og fékk mér Baylies og súkkulaðiköku svona rétt til að sefa tilfinningu auðmýktar.

Bölvuð bókhlaðan.

Stúdentablaðið