þriðjudagur, október 28, 2008

Bakhluti Biel vekur athygli


Af augljósum ástæðum er dv.is í miklu uppáhaldi hjá mér. Blaðið hefur farið mikinn í kreppunni og staðið sig ágætlega skúbblega séð.

Hjá vefmiðlinum má finna nokkrar greinar sem fjalla um kreppuna á ákveðinn hátt og óhætt að segja að nokkrir aðalleikararnir í gjaldþroti þjóðarinnar fái á baukinn hjá blaðamönnum DV.

Ekki verður þó komist hjá því að taka eftir því að tvær vinsælustu fréttirnar á vef DV í kvöld eru um játningar Handrukkara-Annþórs og afturendann á Jessicu Biel.
Aðrar frengir vekja minni athygli lesenda netsíðunnar.

Því spyr maður sig hvort stjórnendum blaðsins hafi mistekist að endurheimta þann trúverðugleika sem lagt var upp með að endurheimta í upphafi?

fimmtudagur, október 23, 2008

Gengi Tottenham og íslensku krónunnar



Þetta finnst mér sniðugt.

miðvikudagur, október 22, 2008

Yfirlýsing - ég tek á mig ábyrgðina


Yfirlýsing frá ritstjóra kedjufiflid.blogspot.com

Í ljósi þess að að enginn vill taka ábyrgð á hruni bankakerfisins hef ég, Viðar Guðjónsson, ákveðið að stíga fram og taka þetta á mig. Stjórnmálamenn og aðrir eru því stikkfrí í allri umræðu sem kann að bera á góma um ábyrgð á kreppuástandi.

Virðingafyllst, Viðar Guðjónsson.


þriðjudagur, október 21, 2008

Pæling


Af hverju er sá fídus á sumum bílum, að hægt er að gleyma ljósunum á honum.

Ekki það að ég hafi verið að gleyma ljósunum á bílnum mínum nýlega. En í gegnum tíðina hef ég oft gleymt að slökkva ljósin á þeim bílum sem ég hef verið á. Í kjölfarið verða þeir svo rafmagnslausir og ég á sennilega Evrópumet í startkaplanotkun. Það er hins vegar annað mál.

Því spyr maður sig. Hvaða mögulega notagildi getur maður haft af því að hafa ljósin kveikt án þess að bíllinn sé í gangi?

föstudagur, október 17, 2008

Ég tek slátur



Árið er 2008. Staðurinn er Ísland. Húsnæðis- og bílalán hækka, gjaldþrot blasa við og atvinnuleysið vofir yfir vötnum. Kreppan er mætt eins og löggan sem rekur alla úr geggjuðu partýi. Fyrir skömmu jafn fjarlæg og svarti dauði en nú grimmur raunveruleiki sem horfast verður í augu við. Örvinglað reitir fólk hár sitt og spyr: Hvað á ég til brags að taka? Og ekki stendur á svari....... ég tek slátur.

Í kvöld var mér boðið í slátur til Möggu frænku. Það var ágætt þar sem ég hef ekki smakkað það í svona fimm ár. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að búið er að bjóða mér í slátur bæði á laugardag og sunnudag líka. Þetta húsráð hlýtur að koma fram í handbókinni Aðgerðaráætlun í kreppu. Ég hef að vísu ekki komist yfir þessa bók en geri ráð fyrir því að þetta standi á blaðsíðu eitt.

miðvikudagur, október 15, 2008

Tveggja manna tal um stöðu Íslendinga


Ég og Skúli vinur vorum fyrir nokkrum dögum að að tala saman um stöðu Íslendinga og utanríkismál. Við vorum sammála um að Bretar hefðu komið illa fram við litlu lömbin í þessu landi.

Í kjölfarið fórum við að ræða hvað Íslendingar þyrftu að gera til þess að lágmarka skaða þjóðarinnar. Eftirfarandi grein er um pælingar okkar.

Hún er í anda fínnar greinar Eiríks Bergmanns Einarssonar stjórnmálaprófessors í The Guardian þar sem hann kom sjónarmiðum Íslendinga á framfæri.

Ég ætlaði nú bara að hafa fyrir mig en what ðe hey. Hér kemur hún en þess má geta að hún er meira í samræðuformi við sjálfan mig.

Það er gríðarlega mikilvægt PR-lega séð fyrir Íslendinga að hamra járnið á meðan heitt er.

Með réttum málflutningi geta íslendingar spilað sig í alþjóða samfélaginu (réttilega að vísu) sem fórnarlömb stóra ljóta stráksins á leikvellinum.

Grein Eiríkst er vel skrifuð ætti aðeins að vera forsmekkurinn af því sem koma skal.

Hvarvetna, á Norðurlöndum sem og annars staðar í heiminum, eru sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga að koma þessum punkti á framfæri. Bretar spörkuðu í litla liggjandi þjóð þegar hún mátti sem minnst við því.

Að vísu eru líkur á því að tíminn leiði það í ljós, bæði í efnahagslegu sem lagalegu tilliti, að þetta mun reynast feigðarflan fyrir Brown forsætisráðherra Breta.

Kaupþing fór á hausinn í kjölfar þess að eigur bankans voru frystar, þetta er óvéfengjanleg staðreynd í sögulegum skilningi. Með öðrum orðum það virðast flestir vera sammála um það.

Ef Íslendingar fara að fordæmi Eiríks Bergmann Einarssonar stjórnamálafræðings og útskýra hvarvetna hvers vegna Íslendingar voru fórnarlömb, kann það að hafa gríðarlega jákvæð áhrif á þá uppbyggingu sem er í vændum.

Tími er peningar stóð einhvers staðar og því fyrr sem hægt er að útrýma allri tortryggni í garð Íslendinga erlendis, því betra. Ef við náum með einhverjum hætti að lágmarka ímyndarskaðann sem þjóðin hefur orðið fyrir kann það að hafa þau áhrif að sá tími sem það tekur íslenska viðskiptamenn að fá traust á alþjóðlegum mörkuðum, styttist.

Gríðarlega mikilvægt er að átta sig á því að á sama tíma og við skoðum hvað fór úrskeiðis, getum við sótt upp kantinn, gefið hættulega sendingu fyrir markið, og skorað með lúmskri hælspyrnu úr þröngri stöðu.

Með samræmdum aðgerðum kann sá tími sem það tekur að endurvekja traust á íslensku atvinnulífi að minnka töluvert. Nú ríður á að bregðast hratt við svo hægt sé að ná hámarks árangri í viðleitni okkar Íslendinga að bæta okkur skaðann á orðsporinu.

Ef einhvern tímann hefur verið réttlætanlegt að halda úti fjárfrekum sendiráðum hlýtur tími þeirra að koma fram nú sem aldrei fyrr, sinni skyldu sinnin, verði hávær og kynni fyrir alþjóða samfélaginu hvernig á Íslendingum var brotið þegar stór lýðræðisþjóð notaðist við hentisemis-hryðjuverkalög til þess knésetja aðra smáa. -

Hvert eigum við að beina málflutningi okkar? Bandaríkin yfirgáfu okkur. Fyrir vikið er staða þjóðarinnar veikari og engum dylst að Bretar hefðu ekki komið fram með þessum hætti ef við hefðum stóra bróðir með á leikvellinum.

En öllum aðstöðum fylgja tækifæri. Íslendingar þurfa ekki lengur að óttast eða hugsa um, hvað Bandaríkjamönnum finnst um aðgerðir okkar. Íslendingum eru því í vissum skilningi ,,frjálsari” en áður þegar kemur að utanríkismálum. Við höfum nær engu að tapa.

Helstu hagsmunir okkar nú liggja í því að bjarga hjólum atvinnulífsins. Því er mikilvægt að koma boðskapunum á framfæri í ríkjum Evrópu, ekki endilega þessum stóru, ekki síður í öðrum smáríkjum þar sem íslendingar geta bent, svart á hvítu, hvernig komið er fram við smáþjóðir þegar í harðbakkann slær.

Hneykslan á framferði Breta í alþjóða samfélaginu gæti hjálpað Íslendingum. Reiði okkar er réttlát. Augu alheimsins eru á Íslandi. Nýtum okkur það. Nýta má þann byr sem Brown hefur veitt í segl vindlausra Íslendinga. Okkur veitir ekki af allri þeirri samúð sem við getum fengið.

Allt er undir, Ísland gæti orðið gjaldþrota.

Langaði bara að koma þessu frá mér, kveðja Keðja.

Baby im back



Nýlega ákvað bloggarinn skeleggi Keðjufíflið að hefja að blogga að nýju. Ár og dagar eru síðan hann bloggaði síðast og ákvað fréttaritari kedjufiflsins.blogspot.com því að spjalla eilítið við Keðjufíflið á þessum tímamótum.

Hvers vegna ákvaðst þú að byrja að blogga aftur. Var það efnahagsástandið?
,,
Nei ég get ekki sagt það. Ég lá upp í rúmi og gat ekki sofnað og ákvað því að skrifa eitthvað hér inn."

Heldur þú að lesendur síðunnar séu búnir að jafna sig á síðust færslu um Bandarískt þjóðfélag?
,, Ég veit það ekki en það er alveg ljóst að þetta er alvarlegt mál. Ég á ekki von á því að ástandið batni ef fulltrúi háværs minnihlutahóps kemst til valda í Bandaríkjunum."

Hvað áttu við?
,,
Nú Sarah Palin er búinn að fara hamförum í yfirlýsingum sínum að undanförnu. Hún sýnir okkur það að þrátt fyrir að margt hafi áunnist í að kenna konum er þeim enn ekki treystandi fyrir æðstu valdastöðum."

Hvað er annars að frétta? ,,Ekki margt. Hætti að vísu hjá Fram sem ég hef spilað fyrir frá barnæsku. Fór í Víking og Fylki áður en ég snéri aftur í Safamýrina. Síðan fór ég að vinna sem blaðamaður í eitt og hálft ár. Keypti mér íbúð. Hætti með kærustunni. Hætti svo í vinnunni og fór að leita mér af annarri. Þá skullu á efnahagssamfarir og ég fór að blogga. Að öðru leiti er lítið af mér að frétta......... Ég fékk mér að vísu snigla í fyrsta skipti. Það var ágætt."

Svona að lokum. Aðhyllist þú enn frjálshyggju?
,,
Svo sannarlega. "

Hvernig skýrir þú þá fall efnahagslífsins Íslandi.
,,Nú með ríkisinngripunum að sjálfsögðu. Ég veit ekki betur en allt hafi verið í fínu lagi fram að því."

Og þar með var hann rokinn í burtu. Þetta voru lokaorð Keðjufíflsins að sinni. Fréttaritari síðunnar gat nú ekki stillt sig um að horfa á eftir honum og óhætt að segja að á engan sé hallað þegar sagt er að vandfundinn er kynþokkafyllri maður. Fréttaritara komu í hug þessi fleygu orð þegar hann horfði á eftir Keðjufíflinu. ,,I hate to see you go, but I love to watch you leave."