fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Helvítis Danirnir

Vinna okkur 14 - 2 og síðan 6 - 0. Drápu Jónas Hallgrímsson með bjórnum sínum.
Eru ekki rassgat ligeglad og senda okkur svo bara ormétið mjöl.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Hlaupasaga

Staður: Rvk.
Verkefni: 10 km hlaup
Aðstæður: 7 gráðu frost, logn, svell á löngum köflum, annars staðar snjór, nokkuð um brekkur.
Hlaupaleið: Úr Safamýri og svo, Miklabraut, Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut. 4 hringir.

Sólargeislarnir lituðu upp gufukenndan andardráttinn í frostinu, þegar haldið var af stað frá Framheimilinu kl 10.30. Hugsanir á borð við, ,,nei" og ,,hvernig á þetta að gagnast knattspyrnumönnum", flugu í gegnum höfuðið. Á fyrsta hring marraði í stífum liðum og stirðum vöðvum á meðan menn komu sér í gang. U.þ.b. 12 mínútum og 2,5 km síðar var hringurinn búinn og annar hringurinn tók við. Nokkrir geðsjúklingar hófu að auka hraðan og fljótlega var hluti hópsins kominn u.þ.b. 200 metra á undan mér. Enn svona þokkalega jákvæður hugsaði ég ,,jæja þá er fyrsti búinn og bara 3 eftir". Hringur númer tvö var erfiður.

Á hring þrjú komu fram hugsanir á borð við ,,drottinn minn dýri það er svo mikið eftir" og ,,mig langar í heitt kakó". Eftir þriðja hring stóð þar þjálfaraböðullinn með öxi í formi klukku. Ég hljóp framhjá honum með tunguna í eftirdragi og augljóslega stutt frá hjartaáfalli. Því vonaðist ég til þess að Óli myndi segja ,,þetta er komið gott, ég var að grínast með fjórða hringinn, fáiði ykkur heitt súkkulaði, það er skipun." þess í stað sagði hann hins vegar ,, Viddi þú ert að fara aðeins of hægt, þú verður að bæta aðeins í til þess að ná þessu undir 46 mínútum", sem var markmið dagsins.

4. hringur: hugur á móti líkama, andinn á móti efninu, ekkert yang, bara ying. Með því að breyta texta lagsins Eitt lag enn, sem var framlag Íslands í Eurovision árið 1989, í ,,eitt skref enn", tókst mér að þrauka hálfan hringinn. En þegar kom að helvítis Háaleitisbrautinni sem er ein samfelld brekka í svona 800 metra, dugði það ekki lengur til. Við tók ljónsvilji músarinnar og fæturnir, þreyttari en Bubbi Mortens, héldu einhvern veginn áfram. Þegar ég sá glitta þjálfarann, var ég nánast orðinn galinn af þreytu. Ég hljóp áfram eitt skref, svo annað til og endurtók þetta ferli nokkrum sinnum og síðan.....þegar svona 30 metrar voru í mark, var kona með barnavagn í vegi mínum. Á þeim tímapunkti ákvað galinn hugur minn að beygja ekki framhjá vagninum þar sem í því fælust 2-3 auka skref. Augu mín og móðurinnar mættust og móðureðlið sagði henni að líklega stefndi hér í óefni. Á örskotsstundu sveigði hún barnavagninum frá, en í sömu andrá þeystis ég framhjá á allt að 6km hraða.

Þegar í markið var komið hafði ég rétt orku í það að æpa jess!!! Um leið og þjálfarinn sagði að ég hefði náð tímanum. Eftir þetta fór ég í sturtu og fór upp að tippa. Þura var svo væn að rétta mér AB mjólk vegna mikils orkutaps. Ég opnaði hana og byrjaði að drekka, en bragðlaukarnir mótmæltu samstundis. Mjólkin var frá 29 september og kjékkótt mjög.....

já það er ekki tekið út með sældinni að vera fótboltamaður/geðsjúklingur á Íslandi.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Meðlimur Sopranos fjölskyldunnar ,,harður" Valsari.

Í grein Steingríms Ólafssonar sem birtist á bloggsíðu hans, eru leiddar líkur að því að einn aðal fjárstyrktaraðili Vals sé maður að nafni Engilbert Runólfsson. Engilbert þessi ku vera þekktur í undirheimum Reykjavíkur, án þess að undirritaður hafi það frá fyrstu hendi.

En ef satt reynist, má líkja þessu við þá spillingu sem er víða í kringum fótboltann í Evrópu.

Skemmst er að minnast þess þegar upp komst um hneyksli á Ítalíu þar sem ýmsum félögum voru fundin sek um að múta dómurum og voru þau dæmd til misharðra refsinga eftir því hve stórfelld brot þessi voru.

Því má ætla að auðvelt verði að leggja saman tvo og tvo, ef t.d. Garðar Örn Hinriksson birtist skyndilega í nýjum gulljakafötum, eða með brotnar hnéskéljar eftir að hafa dæmt í leikjum Vals næstkomandi sumar.

Annars....gerist aldrei neitt svoleiðis á Íslandi, er það?

laugardagur, nóvember 18, 2006

kossaflens

Sigmar í Kastljósinu og Guðmundur Steingrímsson hafa báðir gert kossaflens að umfjöllunarefni. Sigmar á bloggsíðu sinni, en Guðmundur í bakþönkumFréttablaðsins og á blogsíðu sinni.

Í framhaldi af þessari umræðu langar mig að minnast á það að ég var einu sinni kysstur af manni frænku hennar Rögnu sem ég hafði hitt svona tvisvar. Sá maður er einnig þekktur sem annar helmingur tvíeykisins Birta og Bárður.
















Lesandi góður, þú getur kallað mig bældan mömmustrák með hor, en mér finnst þetta einfaldlega rangt.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Rökleysa

Ég stóð sjálfan mig að því að hugsa þetta nú rétt í þessu.

Hmmm...Ætli ég sé óbreyttur borgari?...Ekki ef eitthvað er að marka öll þessi gráu hár...jæja, ég er allavega ekki að fá skalla.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Verði þér að góðu jólasveinn

Það var Aðfangadagur og Siggi litli var orðinn rosalega spenntur og gat hreinlega ekki beðið eftir því að jólin byrjuðu. Á meðan Siggi beið í eirðarleysi var mamma hans fram í eldhúsi, þegar byrjuð að elda jólasteikina. Siggi fór inn í eldhús og spurði mömmu sína hvort að hún ætti eitthvað að gera handa honum. En mamma hans sagði við hann að hann væri allt of lítill til þess að geta hjálpað til. Siggi fór þá til pabba síns sem var að gefa svínunum. ,,Pabbi" sagði siggi litli ,, má ég hjálpa þér að gefa svínunum" en pabbi Sigga litla sagði að hann væri hreinlega allt of lítill. Þá fór Siggi litli til systur sinnar sem var að mjólka ána sína í ofurlitla fötu. Siggi spurði systur sína hvort að hann mætti hjálpa henni, en hún sagði að hann væri of lítill til þess að geta hjálpað sér. Siggi litli var orðinn mjög leiður og hugsaði með sjálfum sér ,,ég skal sko sína þeim að ég er ekkert lítill". Siggi Litli tók sig til Þeystist á bak á svíninu Þorgrími og saman héldu þeir upp í ævintýaraferð.

Sigga til nokkurrar undrunar þá reyndist Þorgrímur altalandi á mannamáli auk þess sem hann talaði rússnesku, jiddísku og Tröllamál. Siggi og Þorgrímur ferðuðust langan veg og stoppuðu ekki fyrr það var byrjað að rökkva. Siggi tók eftir því að allt í kringum þá voru háir klettar og hvergi virtist vera leið út úr þessum dal sem þeir voru komnir í. ,,hér hvílum við okkur" sagði Þorgrímur í valdsmannslegum tón. Siggi hafði tekið eftir því að Þorgrímur taldi sig vera foringja í leiðangrinum og satt best að segja fór það í taugarnar á honum. ,,Hver skipaði þig einhvern foringja" sagði Siggi ,,hvað er að þér" sagði Þorgrímur á einstaklega hrokafullan hátt um leið og hann brosti kaldhæðnislega. Við þetta fauk í Sigga sem tók upp stærtsta stein sem hann sá og lét hann falla ofan á höfuð Þorgríms sem vissi aldrei hvað það var sem lenti á honum, höfuðkúpan gaf sig og út vætlaði maukað blóð. ,,Hver talar jiddísku núna!!!" öskraði Siggi svo hátt að fjöllin í kring nötruðu vegna kröftugra hljóðbylgna sem komu úr raddböndum Sigga litla.

Siggi litli fann að hann var orðinn svangur og nú kom það sér vel að hafa verið í skátunum, því hann kunni að kveikja eld með því að núa saman tveimur spítum. Eftir að hann hafði kveikt eld stakk Siggi Litli teini í gegnum svínið Þorgrím og byrjaði að grilla hann. Siggi litli var orðinn nokkuð hræddur því hann var kominn svo langt að hann rataði ekki aftur heim og nú var líka byrjað að snjóa. Þegar Siggi hafði grillað Þorgrím í góðan tíma og maturinn var alveg að verða tilbúinn, heyrði Siggi skyndilega hljóð. Þetta hljóð var ekki ósvipað garnagauli, bara miklu miklu hærra og hljóðið nálgaðist. Garnagaulið var nú ekki meira en tíu metra frá Sigga en hann gat samt ekki séð hver, eða hvað þetta var, því það var svo dimmt. Siggi sá dökka mikla veru nálgast birtuna. Fyrst gat hann bara séð svört stígvél en svo sá hann að veran var klædd í rauðan búning. Viti menn þetta var sjálfur jólasveinninn. ,,Jólasveinninn" hrópaði Siggi litli í hrifningu. ,,Hó hó hó" kallaði jólasveinnin af veikum mætti. ,,Er eitthvað að jólasveinn"? spurði Siggi litli. Já, sagði jólasveinnin ég gleymdi að taka með mér nesti í sjálfan jólaleiðangurinn. Ekkert mál sagði Siggi ,, ég er akkúrat að grilla Þorgrím." ,,grilla Þorgrím"? muldraði jólasveinnin í undrun sinni en skeytti ekki meira um það því hann var orðinn svo svangur. Siggi og Jólasveinninn átu svínið og drukku rauðvín sem jólasveinnin hafði ætlað að gefa manni sem hafði dáið fyrr um kvöldið og hafði því ekki not fyrir það lengur.

Þegar þeir voru báðir orðnir mettir bauð jólasveinninn Sigga litla far heim sem hann þáði. Þegar heim í hlað var komið sagði jólasveinninn kankvís ,,þakka þér fyrir allt saman" og Siggi svaraði um hæl ,,verði þér að góðu jólasveinn, verði þér að góðu". Síðan flaug jóasveinnin út í nóttina saddur og glaður. Eftir þetta kölluðu allir Sigga litla, Sigurð eða herra Sigurð og Siggi litli fékk alltaf nóg að gera á jólunum.

(þessi saga er af fyrra blogginu mínu sem lifði afar stutt. En þess má geta að þetta var jafnframt fyrsta blogg mitt og gert einn daginn á milli viðskiptavina í gjaldkerastarfi við KB banka sem ég vann í eitt sumar).

laugardagur, nóvember 11, 2006

,,Ég er nú meiri karlinn"

Ég fór á herrakvöld Fram í kvöld. Minnti mig svolítíð á það þegar ég var að horfa á Skaupið þegar ég var lítill. Ég hló bara þegar hinir hlógu, en samt voða lítið.

Í andlegri fjarvist minni varð mér þó hugsað til húmors og hvað það er mönnum mikilvægt að hafa húmorinn innan ákveðinna marka. Þarna voru t.a.m. komnir saman margir karlmenn sem settu sig í hlátursstellingar.

Hlátursgretturnar voru komnar á andlit manna áður en kom að punch læninu og síðan braust hláturinn fram eins og stífla sem brestur. Auðvitað var humorinn á kostnað kvenna. Ef Bríeturnar hefðu verið á svæðinu hefðu þær líklega snúið höfðinu í hring, froðufellt og labbað afturábak í köngurlóastellingu.

En svona er þetta bara og þegar öllu er á botninn hvolft náðist takmark kvöldsins sem var að skemmta miðaldra karlmönnum í svörtum og gráum jakkafötum og þá meina ég einungis í svörtum og gráum jakkafötum.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Af fordómum







(Jón Magnússon bjargvættur
íslenskrar (ó)siðmenningar)

Í Blaðinu í fyrradag skrifar Jón Magnússon pistil undir yfirskriftinni ,,Pólitískt rétt". þar gagnrýnir hann þá sýn fjölmiðla að stefna frjálslyndra einkennist af fordómum. Hann segir m.a. ,,dómur byggður á rökum eða staðreyndum er ekki fordómur". Þar er ég sammála honum.

En grípum niður í viðtal við hann í Silfri Egils....

Egill: Eru þeir (múslimar) þá að þínu mati ógnun við samfélagið?

Jón: "Þá bara spyr ég þig á móti. Þegar danskur pylsusali er barinn til óbóta af Sonum Allah, vegna þess að hann selur pylsur þar sem er svínakjöt, hvers konar þjóðfélag er þá komið og er þetta hópur sem við sækjumst eftir ? Yrðum við ánægð með það ef Bæjarins bestu væru lögð í rúst af því að þar eru seldar pylsur með einhverjum efnum sem synir Allah sætta sig ekki við."

Þetta eru s.s. ekki fordómar. Það er athyglisvert.

Þessu má líkja við útlendan mann sem segir: Ég vil ekki fá inn í mitt land nokkurn mann frá Íslandi. Þeim finnst ekkert skemmtilegra en að myrða saklausa borgara í Írak og drepa alla hvali sem fyrirfinnast á jarðkringlunni á meðan þeir borða súrsaða hrútspunga og hlusta á FM 957.

Engir fordómar þar á ferð... eða hvað?

laugardagur, nóvember 04, 2006

Ójafnrétti

Talsmenn glímusambandsins voru æfir þegar fréttist af því hversu há laun landsliðsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu fá fyrir þátttöku sína í leikjum þess. Haft var eftir Jóni Birgi Valssyni formanni glímusambandsins að ,,það sé fáránlegt að strákarnir okkar fái ekki jafn há laun og knattspyrnumennirnir þegar þeir hafa sýnt jafn góðan árangur og raun ber vitni á alþjóðlegum mótum."

Hér er Jón að vitna í alþjóðlegt mót sem haldið var á landinu nú fyrir skömmu þar sem Íslendingarnir hreinlega völtuðu yfir andstæðinga sína frá Svíþjóð, Belgíu og Hollandi svo dæmi megi nefna. Með mótinu fylgdust vel á tylft manna og er það til marks um þann uppgang sem er í íþróttinni.

,,Þetta staðfestir grun okkar sem lengi hefur verið uppi um það ójafnrétti sem er á milli íþrótta á Íslandi."

Að auki bætti Jón því við að farið verður í kröfugöngu þann 19. júní á næsta ári til þess að undirstrika fáránleika ójanréttis í íþróttum á Íslandi. Þar munu koma saman landsliðsmenn úr fjölmörgum íþróttum eins og Judó, Paint ball og keilu auk kvennalandsliðsins í knattspyrnu. En Aðspurður út í málið sagðist Jörundur Áki Sveinsson þjálfari kvennalandsliðsins þegar vera byrjaður að hanna skilti fyrir kröfugönguna á næsta ári.

,,Jú, það er rétt, á því stendur : Sömu laun fyrir sömu vinnu og Eyjólfur".

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Vinstri bakverðir

Það er eins og ég hafi heyrt þetta áður(ath fyrirsögn).